Það verður dýrt að reka Zidane

Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane. AFP

Það hefur ekki gengið sem skyldi hjá Real Madrid undir stjórn Zinedines Zidanes og nú þegar leiktíðin er rétt nýhafin er sú umræða farin af stað hvort Zidane verði látinn taka pokann sinn áður en langt um líður.

Real Madrid fékk háðulega útreið gegn Paris SG í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar í vikunni en Madridarliðið tapaði 3:0 í París án þess að eiga eitt einasta skot á mark andstæðinganna.

Fiorentino Perez forseti Real Madrid er þekktur fyrir að sýna litla þolinmæði gagnvart þjálfurum en það myndi kosta félagið fúlgur fjár ef það tæki þá ákvörðun að reka Zidane. Real Madrid þyrfti að punga út 80 milljónum evra sem jafngildir um 11 milljörðum króna.

Zidane skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við Real Madrid í mars. Hann ákvað að snúa aftur í þjálfarastarfið hjá félaginu eftir að hafa látið af störfum skömmu eftir að liðið tryggði sér sigur í Meistaradeildinni á síðasta ári.

Real Madrid á erfiðan útileik fyrir höndum á sunnudaginn en þá mætir það Sevilla sem trónir á toppi deildarinnar.

mbl.is