Vilja að félög neiti að spila þar sem konum er meinaður aðgangur

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, með eiginkonu sinni og dóttur.
Aleksander Ceferin, forseti UEFA, með eiginkonu sinni og dóttur. AFP

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur mælst til þess að félög í Evrópu neiti að spila í þeim löndum þar sem konum er meinaður aðgangur að knattspyrnuvöllum. Frá þessu greindi Aleksander Ceferin, forseti UEFA, í kvöld.

„Framkvæmdastjórn UEFA mun mæla með því við öll 55 knattspyrnusamböndin og öll félög í Evrópu að spila ekki leiki í þeim löndum sem konur hafa takmarkaðan aðgang að leikvöngum,“ sagði Ceferin á fundi framkvæmdastjórnar UEFA sem haldin er í Slóveníu.

Yfirlýsing UEFA kemur í kjölfar ákalls FIFA um að krefjast þess að konum í Íran verði leyfður ótakmarkaður aðgangur að leikvöngum landsins en þeim hefur hefur verið meinaður aðgangur frá árinu 1981 þrátt fyrir alþjóðlegan þrýsting um að leyfa þeim að mæta.

Ítölsk knattspyrnuyfirvöld voru gagnrýnd á síðasta ári eftir að hafa skipulagt viðureign Juventus og AC Milan í Super Cup sem fram fór í Sádi-Arabíu þar sem konum er meinaður aðgangur að íþróttaviðburðum.

„Að því er við best vitum þá eru það tvö lönd sem meina konum og stúlkum að horfa á fótbolta,“ sagði Ceferin.

mbl.is