Eins leiks bann fyrir að nefbrjóta Dagnýju

Dagný Brynjarsdóttir lék með myndarlega andlitsgrímu í gær gegn Lettum.
Dagný Brynjarsdóttir lék með myndarlega andlitsgrímu í gær gegn Lettum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Beverly Yanez, leikmaður Reign í bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu, var í gær úrskurðuð í eins leiks bann fyrir að nefbrjóta Dagnýju Brynjarsdóttur. Atvikið átti sér stað í 2:0-sigri Reign gegn Portland Thornes 29. september.

Dagný var á sínum stað í byrjunarliði Portland Thorns og lék allan leikinn á miðri miðjunni. Portland Thorns er í þriðja sæti deildarinnar með 39 stig en Reign er í því fjórða með 37 stig þegar 23 umferðir eru búnar af tímabilinu.

Dagný var í eldlínunni með íslenska landsliðinu í gær sem vann 6:0-sigur gegn Lettlandi í Liepaja. Dagný skoraði annað mark íslenska liðsins en hún lék með myndarlega andlitsgrímu í leiknum vegna nefbrotsins. 

mbl.is