Á meðan enn er von þá hefur maður trú

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.isEggert Jóhannesson

„Á meðan það er ennþá von hefur maður trú. Við ætlum okkur á þriðja stórmótið í röð, og það yrði rosalegur árangur fyrir íslenskt landslið,“ segir Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, þegar Morgunblaðið slær á þráðinn til hans til Katar.

Aron vinnur að því hörðum höndum þessa dagana að koma sér aftur út á fótboltavöllinn eftir að hafa orðið fyrir hrottalegri tæklingu í leik með Al Arabi í katörsku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði. Liðbönd í ökkla slitnuðu við tæklinguna og Aron segir mildi að ekki skyldi fara verr. Vegna meiðslanna missti hann af leikjum við Frakkland og Andorra í síðasta mánuði, og hann verður sömuleiðis ekki með gegn Tyrkjum á morgun eða gegn Moldóvu á sunnudag, þegar undankeppni EM lýkur.

Ísland þarf á hálfgerðu kraftaverki að halda til að komast beint á EM, en það felst í því að liðið vinni báða leiki sína og Tyrkland nái ekki að vinna Andorra á útivelli í lokaumferðinni. Að öðrum kosti fer liðið í umspil í lok mars og myndi þá vonandi njóta krafta Arons og Jóhanns Bergs Guðmundssonar, sem er einmitt einnig staddur í Katar í sjúkraendurhæfingu líkt og Aron:

Á undan áætlun og líður vel

„Endurhæfingin gengur mjög vel. Ég er á undan áætlun og líður bara vel,“ segir Aron, sem er reyndar ekki þekktur fyrir að láta bilbug á sér finna. „Fyrstu tvær vikurnar var ég í gifsi, næstu tvær í spelku þó að reiknað hafi verið með þremur vikum, og er farinn að gera æfingar sem ekki var búist við að ég yrði farinn að gera á þessum tímapunkti. Læknateymið er mjög ánægt með hvernig þetta hefur þróast. Hægt og rólega mun ég koma mér út á grasið, alla vega í byrjun desember, og planið er að ég nái fyrsta leiknum eftir áramót, 2. janúar,“ segir Aron, sem er líklega á besta stað í heimi þegar kemur að meðferð við meiðslum:

„Ef maður byggi ekki hérna væri ég sennilega kominn hingað hvort sem er í endurhæfingu. Hérna hefur maður mjög góða sérfræðinga og sjúkraþjálfara sem sjá um mann á morgnana, og seinni part dags eru æfingar hjá liðinu með fitnessþjálfara og öðru. Ég er því á fínu róli og virkilega ánægður með þetta.“

Aron hafði skorað tvö mörk í síðustu fjórum leikjum með Al Arabi þegar hann meiddist, og virtist í afar góðu formi á sinni fyrstu leiktíð eftir komuna frá Cardiff í Englandi.

Sjá allt viðtalið við Aron á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »