„Var alls ekki dónalegur“

Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðsins.
Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðsins. mbl.is/Árni Sæberg

Eins og fram hefur komið fékk Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðsins í knattspyrnu, rautt spjald undir lok leiksins í viðureign Ítala og Íslendinga í undankeppni Evrópumótsins þegar liðin áttust við á Ítalíu um síðustu helgi.

„Ég bað bara menn kurteislega að vinna vinnuna sína og það má ekki orðið. Ég tek alveg á mig sökina. Ég orðaði kannski ekki hlutina rétt en ég æsti mig alls ekki og var alls ekki dónalegur. Maður lifir sig inn í leikinn. Það er annaðhvort að gera það eða maður situr og lætur eins og manni sé skítsama.

Það voru búin að eiga sér stað nokkur augnablik inni á vellinum sem mér fannst að dómarinn hefði mátt grípa inn í fyrr til að vernda okkar leikmenn og þegar er verið að gera eitthvað á þeirra hlut þá er ég virkur og læt í mér heyra,“ sagði Eiður Smári í samtali við mbl.is en lærisveinar hans og Arnars Þórs Viðarssonar töpuðu leiknum 3:0.

„Úrslitin segja allt aðra sögu og fyrri hálfleikurinn á Ítalíu er sá besti sem við höfum spilað fram að þessu en við þurfum aðeins fleiri færi til að refsa á meðan þeir eru aðeins lengra komnir. Þar liggur munurinn,“ sagði Eiður Smári.

Eftir fimm leiki í riðlinum er Ísland í þriðja sæti riðilsins með 9 stig. Írar eru efstir með 16 stig eftir sjö leiki og Ítalir eru í öðru sæti með 13 stig eftir fimm leiki. Svíar eru svo í fjórða sætinu með 6 stig eftir fjóra leiki. Næsti leikur Íslendinga er útileikur gegn Írum 26. mars.

mbl.is