Dæma heimaleiki hjá Dortmund og PSG

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari. mbl.is/Hari

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson milliríkjadómari í fótbolta mun dæma viðureign Dortmund og Slavia Prag frá Tékklandi í Unglingadeild UEFA sem fram fer í þýsku borginni Dortmund annað kvöld.

Aðstoðardómarar á leiknum verða Gylfi Már Sigurðsson og Birkir Sigurðarson. Vilhjálmur hefur áður dæmt tvo leiki í þessari sömu deild á árinu, viðureign Chelsea og Mónakó í London í febrúar og viðureign Lille og Valencia í Frakklandi í október.

Helgi Mikael Jónasson verður líka við stjórnvölinn á heimavelli stórliðs en á miðvikudagskvöldið verður hann í París og dæmir leik París SG og Galatasaray í Unglingadeild UEFA. Með honum sem aðstoðardómarar verða Jóhann Gunnar Guðmundsson og Þórður Arnar Árnason.

mbl.is