Selfyssingurinn of dýr fyrir Hammarby

Viðar Örn Kjartansson í leik með Rubin Kazan í vetur.
Viðar Örn Kjartansson í leik með Rubin Kazan í vetur. Ljósmynd/Rubin Kazan

Íþróttastjóri sænska knattspyrnufélagsins Hammarby staðfestir að félagið hafi haft mikinn áhuga á að fá Viðar Örn Kjartansson aftur í sínar raðir en segir að hann sé of dýr fyrir félagið á þessari stundu.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu fyrir skömmu er Hammarby eitt þeirra liða sem hefur viljað fá Viðar í sínar raðir eftir að í ljós kom að hann væri á leið frá Rússlandi, þar sem hann er samningsbundinn Rostov og er nýkominn aftur þangað úr láni hjá Rubin Kazan.

Viðar lék með Hammarby sem lánsmaður fyrri hluta síðasta árs og skoraði þá 7 mörk í 15 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni.

Jesper Jansson staðfesti við Fotbollskanalen að hann hefði fylgst vel með stöðu Viðars hjá Rostov og verið í sambandi við hann, en eins og staðan væri í dag væri ekki raunhæfur kostur að fá hann lánaðan eða keyptan.

„Launin í Rússlandi eru gríðarlega há og jafnvel þótt við fengjum hann á hagstæðu kaupverði þyrfti að leysa launamálin. Viðar naut sín hjá okkur og við nutum þess að hafa hann í okkar liði, en nú lítur út fyrir að við þyrftum að greiða honum há laun og gera við hann langan samning. En við höldum sambandi og fylgjumst með hvernig málin þróast,“ sagði Jansson.

mbl.is