Staðfestir að Sara yfirgefi Wolfsburg - áhugi frá Barcelona

Sara Björk Gunnarsdóttir í landsleik.
Sara Björk Gunnarsdóttir í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, er á leið frá þýska meistaraliðinu Wolfsburg að þessu keppnistímabili loknu en íþróttastjóri félagsins Ralf Kellermann staðfestir þetta í dag.

„Okkur þykir leitt að Sara sé á förum frá okkur en þetta hefur blasað við undanfarnar vikur,“ segir Kellerman við staðarblaðið Wolfsburger Allgemeine í dag.

Samningur Söru við Wolfsburg rennur út í sumar en hún hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu síðan hún kom þangað frá Rosengård sumarið 2016 og er orðin bæði þýskur meistari og bikarmeistari þrjú ár í röð. Félagið er líklegt til að verja báða titlana í vor auk þess sem það er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar en þar lék Sara með því úrslitaleik vorið 2018.

Wolfsburger Allgemeine segir að orðrómur hafi verið uppi um að Spánarmeistarar Barcelona vilji fá Söru í sínar raðir en ekki sé ólíklegt að Evrópumeistarar Lyon séu einnig með hana í sigtinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert