Aftur jafnt gegn Írlandi

Byrjunarlið Íslands í dag.
Byrjunarlið Íslands í dag. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U17 ára landslið kvenna í knattspyrnu gerði í dag jafntefli við Írland ytra í vináttuleik, 1:1, en leikið var í Tramore. Þetta var annar leikur liðanna á tveimur dögum en þau gerðu einnig jafntefli á föstudaginn, 2:2, í Waterford.

Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir fyrirliði skoraði jöfnunarmark Íslands á 55. mínútu eftir að þær írsku komust yfir á 35. mínútu eftir hornspyrnu. Íslenska liðið var sterkara í seinni hálfleik, uppskar verðskuldað jöfnunarmark en náði þó ekki að kreista fram sigurmark.

Íslensku stúlkurnar eru að búa sig undir milliriðil Evrópumótsins  sem er leikinn í Ungverjalandi seinni hluta marsmánaðar þar sem þær mæta Rússum, Ungverjum og Rúmenum í baráttu um eitt sæti í lokakeppni EM í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert