Nýjar rangstöðureglur samþykktar fyrir EM?

Mikið hefur verið deilt um réttmæti margra rangstöðudóma þar sem …
Mikið hefur verið deilt um réttmæti margra rangstöðudóma þar sem VAR hefur komið við sögu. AFP

Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, hefur beitt sér fyrir breytingum á rangstöðureglunni í fótboltanum og samkvæmt The Times gætu þær tekið gildi strax í lokakeppni Evrópumóts karla í sumar.

Dómgæsla með myndböndum, VAR eins og hún er skammstöfuð á ensku, hefur verið mjög umdeild eftir að farið var að beita henni, sérstaklega í ensku úrvalsdeildinni í vetur þar sem túlkun á rangstöðu hefur verið sérstaklega gagnrýnd.

Wenger, sem nú starfar sem þróunarstjóri hjá FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandinu, hefur lagt áherslu á þessar breytingar og The Times segir að málið sé komið það langt að breytingatillögurnar verði lagðar fyrir alþjóðanefndina IFAB á fundi hennar 29. febrúar, en sú nefnd heldur utan um knattspyrnureglurnar og samþykkir eða hafnar tillögum um breytingar á þeim. Samþykki IFAB tillögurnar taka þær  gildi 1. júní í sumar, tólf dögum áður en EM hefst.

Arsene Wenger starfar fyrir FIFA.
Arsene Wenger starfar fyrir FIFA. AFP

Nóg að vera með nefið fyrir innan

„Rangstaðan er stærsta vandamálið í VAR. Þú þarf bara að vera með einn sentimetra af líkamanum fyrir innan aftasta varnarmann, það er bókstaflega nóg að vera með nefið fyrir innan. Það verður að breyta þessu strax. Það er svigrúm til að breyta reglunum á þann hátt að nefið á þér geti ekki verið dæmt rangstætt. Í staðinn átt þú ekki að vera rangstæður ef einhver hluti líkamans sem þú getur beitt til að skora mark er samhliða aftasta varnarmanni, jafnvel þótt aðrir hlutar líkamans séu fyrir innan,“ sagði Wenger fyrir skömmu um mögulega reglubreytingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert