„Ég verð dæmdur af næsta tímabili“

Eden Hazard í leik með Real Madrid.
Eden Hazard í leik með Real Madrid. AFP

Belginn Eden Hazard átti ekki eftirminnilegt tímabil hjá Real Madrid í vetur alla vega ekki ef horft er til hans eigin frammistöðu. 

Hazard gekk í raðir Real frá Chelsea og þurftu Spánverjarnir að greiða um 130 evrur fyrir leikmanninn sem hafði sýnt snilli sína með Chelsea og ekki síst belgíska landsliðinu. 

Hazard skoraði 21 mark fyrir Chelsea á síðasta tímabili en á sínu fyrsta hjá Real í vetur hefur hann skorað eitt mark í fimmtán leikjum en keppni liggur nú niðri vegna kórónuveirunnar eins og fram hefur komið. 

„Mitt fyrsta tímabil í Madrid hefur verið slæmt en alls ekki að öllu leyti. Þetta tímabil var aðlögunartímabil fyrir mig. Ég verð dæmdur af frammistöðu minni á næsta tímabili. Það er undir mér komið að vera í sem bestu formi á næsta tímabili. Leikmannahópurinn er góður og þessi vetur hefur verið góð reynsla fyrir mig. Ég á enn fjögur ár eftir af samningi mínum,“ sagði Hazard í samtali við belgíska útvarpsstöð. 

mbl.is