Upphafið að nýjum knattspyrnuheimi

Uli Hoeneß á von á því að hlutirnir breytist mikið …
Uli Hoeneß á von á því að hlutirnir breytist mikið á næstu árum í fótboltanum. AFP

Uli Hoeness, heiðursforseti þýska knattspyrnuliðsins Bayern München, telur að breytingar séu í vændum í heimi fótboltans vegna kórónvueirunnar. Hlé hefur verið gert á öllum deildum í Evrópu, nema í Hvíta-Rússlandi, vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina en keppni í Þýskalandi mun ekki hefjast fyrr en í fyrsta lagi 30. apríl.

Hoeneß er orðinn 68 ára gamall og telur hann að veiran muni meðal annars hafa mikil áhrif á félagaskipti næstu árin. „Ég sé ekki fyrir mér að mörg félög séu að fara borga í kringum 100 milljónir evra fyrir leikmann á næstunni,“ sagði Hoeneß í samtali við þýska miðilinn Kicker. „Verð á leikmönnum mun hríðfalla.“

„Ég á von á því að þetta verði svona næstu árin á meðan félögin eru að réttu úr kútnum eftir þennan faraldur sem nú geisar. Veiran er ekki bara að fara illa með eitthvað eitt land, þetta hefur gríðarlega áhrif á alla heimsbyggðina. Stærstu Evrópulöndin hafa farið illa út úr þessu og þetta er upphafið að nýjum knattspyrnuheimi,“ bætti Hoeneß við.

mbl.is