Fyrirliðinn sannfærði liðsfélagana

Giorgio Chiellini hefur leikið með Juventus frá árinu 2005 og …
Giorgio Chiellini hefur leikið með Juventus frá árinu 2005 og er fyrirliði liðsins. AFP

Giorgio Chiellini, fyrirliði ítalska knattspyrnuliðsins Juventus, sannfærði liðsfélaga sína á dögunum um að taka á sig launalækkun vegna kórónuveirufaraldsins sem nú herjar á heimsbyggðina. Ítalía er það land sem hefur farið verst úr úr veirunni en alls eru rúmlega 86.500 manns smitaðir af veirunni og þá eru yfir 9.000 manns látnir.

Tuttosport greinir frá því að Chiellini, sem nú er í sóttkví líkt og aðrir liðsfélagar hans eftir að þrír leikmenn aðalliðsins greindust með veiruna, hafa sannfært liðsfélaga sína með myndbandssímtali. Chiellini byrjaði á því að heyra í þeim Leonardo Bonucci, Gianluigi Buffon og Cristiano Ronaldo sem samþykktu einróma að lækka laun sín.

Chiellini hringdi svo í aðra liðsfélaga sínu sem samþykktu umtalsverða launalækkun en búast má við því að félagið sendi frá sér tilkynningu vegna þessa á næstu dögum. Það var stjórnarformaður félagsins, Andrea Agnelli, sem bað Chiellini um að ræða við liðsfélaga sína vegna stöðunnar sem nú er komin upp í knattspyrnuheiminum en Agnelli greindi frá því í viðtali við ítalska fjölmiðla í vikunni að knattspyrnuheimurinn stæði nú frammi fyrir sinni stærstu áskorun til þessa.

mbl.is