Meistaradeild og Evrópudeild fram í ágúst - Rúmeníuleikurinn í haust?

Marcos Llorente og félagar í Atlético Madrid eru komnir í …
Marcos Llorente og félagar í Atlético Madrid eru komnir í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa slegið Liverpool út. AFP

Samkvæmt þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF og netútgáfu The Independent á Englandi kemur ekki til greina hjá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, að blása keppnistímabilið af í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeild UEFA.

Til greina komi að ljúka keppni í þessum mótum í júlí og ágúst.

UEFA fundaði með aðildarþjóðunum 55 í dag og síðan var haldinn fundur í framkvæmdastjórninni í kjölfarið. Engin tilkynning hefur borist frá UEFA enn sem komið er en hennar er vænst á næstu klukkutímum.

Keppnirnar tvær á vegum UEFA verða spilaðar samhliða deildakeppnunum í hinum ýmsu löndum Evrópu sem ljúka á í sumar.

Þá segir ZDF að landsleikjunum í júnímánuði, m.a. umspilinu fyrir EM karla þar sem Ísland á að mæta Rúmeníu, verði frestað fram á haustið.

mbl.is