Þrettán félög á barmi gjaldþrots

Úr leik Schalke og Hoffenheim í síðasta mánuði. Ekki er …
Úr leik Schalke og Hoffenheim í síðasta mánuði. Ekki er vitað hvaða félög eru í fjárhagserfiðleikum. AFP

Þrettán af þeim 36 knattspyrnufélögum sem spila í tveimur efstu deildum Þýskalands eru á barmi gjaldþrots vegna kór­ónu­veiruf­ar­ald­urs­ins sem nú herj­ar á heims­byggðina. Þetta kom fram á fundi félaganna með forráðamönnum deildanna en þýski miðillinn Kicker segir frá.

Ekki kemur fram hvaða félög eru í vandræðum en fjögur þeirra leika í efstu deild og hin níu í B-deildinni. Sjö félög sem leika í B-deildinni verða gjaldþrota í næsta mánuði haldist staðan óbreytt. Þá er eitt félag í efstu deild í sömu stöðu og önnur þrjú sem geta haldið óbreyttum rekstri út júní. Venjulega greiða þýsku sjónvarpsstöðvarnar félögunum í maí en vegna ástandsins ríkir óvissa um þá samninga.

Þýska deildin ákvað að slaka á reglum sínum varðandi fjárhagserfiðleika félaga og verða því ekki dregin stig af félögum sem fara í greiðsluþrot.

mbl.is