Liðsfélaga Söru hótað lífláti

Hedvig Lindahl, landsliðsmarkvörður Svía.
Hedvig Lindahl, landsliðsmarkvörður Svía. AFP

Svíþjóð fór alla leið í undanúrslit á HM kvenna í fótbolta í Frakklandi síðasta sumar. Vann sænska liðið það þýska í átta liða úrslitum, en tapaði síðan fyrir Hollandi í undanúrslitum.

Hedvig Lindahl, markvörður sænska liðsins, átti afar góðan leik í 2:1-sigrinum á Þýskalandi. Ekki voru allir sáttir við þá sænsku, því henni barst líflátshótun stuttu eftir leik. „Ég fann fyrir ömurlegri tilfinningu þegar ég las þetta,“ sagði Lindahl við SVT Sport í heimalandinu. 

Var henni hótað á Instagram og voru skilaboðin viðbjóðsleg. „Ég opnaði Instagram eftir sætan sigur og það fyrsta sem ég sá voru ógeðsleg skilaboð þar sem einhver hótaði að nauðga mér og skera mig á háls á meðan ég svæfi.

Þetta voru nákvæmar lýsingar á því hvað þessi einstaklingur ætlaði að gera við líkamann á mér og hvernig hann ætlaði að drepa mig. Þetta voru úthugsuð skilaboð,“ sagði Lindahl. 

Fór hún með málið fyrir lögreglu og hefur nú bandarískur karlmaður verið handtekinn. Er hann grunaður um að senda fleiri íþróttamönnum svipuð skilaboð. 

„Lögreglan vann þetta mál vel og fann mann sem hafði skrifað þessi skilaboð. Honum leið eitthvað illa og ákvað að senda þetta. Það er klikkað að einhverjum detti í hug að skrifa svona,“ sagði Lindahl enn fremur. 

Leikur sú sænska með Wolfsburg í Þýskalandi þar sem hún er m.a. liðsfélagi Söru Bjargar Gunnarsdóttur. 

mbl.is