Útilokar ekki að bjóða sig fram til forseta

Megan Rapinoe gæti orðið forseti Bandaríkjanna einn daginn.
Megan Rapinoe gæti orðið forseti Bandaríkjanna einn daginn. AFP

Megan Rapinoe, besta knattspyrnukona heims, útilokar ekki að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna en þetta kom fram í samtali hennar við Yahoo Sports. Rapinoe hefur aldrei farið leynt með fyrirlitningu sína á Donald Trump Bandaríkjaforseta en hún hefur gagnrýnt forsetan margoft opinberlega og talað um hann sem einn versta forseta í sögu landsins.

Í viðtalinu við Yahoo Sports sakar hún Trump um að vera fordómafullan rasista. „Það er hvítur rasisti, held ég, sem stjórnar öllu í Hvíta húsinu sem gerir lítið annað en auka á hatur í garð eins þjóðfélagsflokks sem veldur bæði deilum og illindum í samfélaginu sem við búum saman í,“ sagði Rapinoe í samtali við Yahoo Sports.

Þá var hún einnig spurð hvort það kæmi til greina að bjóða sig fram til forseta. „Ég vil alls ekki útiloka það að bjóða mig fram til forseta þótt það sé frekar klikkuð hugmynd. Auðvitað hefur mig dreymt það á einhverjum tímapunkti að vera forseti Bandaríkjanna, ég held að það sé draumur sem alla Bandaríkjamenn dreymir einhvern tímann á lífsleiðinni.

Ef ég yrði hins vegar kosin forseti væri það mitt fyrsta verk að ráða gáfaðra og hæfara fólk í störfin í kringum mig. Ég veit að ég er ekki sú klárasta í bransanum og stærsti hæfileiki stjórnenda er að velja gott fólk í kringum sig sem er hæfara en maður sjálfur til þess að sinna hinum ýmsu verkefnum,“ bætti Rapinoe við.

mbl.is