Tveir leikir í viku í rúman mánuð

Það verður nóg að gera hjá Birki Bjarnasyni næstu vikur.
Það verður nóg að gera hjá Birki Bjarnasyni næstu vikur. AFP

Lið í ítölsku A-deildinni í fótbolta leika tvo leiki í viku frá 20. júní og þar til deildinni lýkur í byrjun ágúst. Verða leikir á dagskrá nánast daglega þar til lokaumferðin fer fram 2. ágúst. Tólf umferðir eru eftir af deildinni, auk fjögurra leikja úr umferð sem ekki tókst að klára vegna kórónuveirunnar. 

Deildin byrjar með leikjunum fjórum úr umferðinni ókláruðu. Torino og Parma ríða á vaðið þann 20. júní og Verona og Cagliari mætast síðar sama dag. Þann 21. júní mætast Inter og Sampdoria annarsvegar og Atalanta og Sassuolo hinsvegar. 

Fyrsta heila umferðin byrjar 22. júní með þremur leikjum. Þá mætast m.a. topplið Juventus og Bologna. Lazio, sem er í öðru sæti, leikur sinn fyrsta leik tveimur dögum síðar gegn Atalanta.

Birkir Bjarnason og liðsfélagar hans hjá botnliði Brescia eiga fyrsta leik 22. júní gegn Fiorentina á útivelli. 

mbl.is