Vill ekki snúa aftur til Englands

Gareth Bale á æfingu hjá Real Madrid.
Gareth Bale á æfingu hjá Real Madrid. AFP

Knattspyrnustjarnan Gareth Bale hefur það gott á Spáni þar sem hann spilar með stórliði Real Madríd. Velski landsliðsmaðurinn er á himinháum launum og nýtur þess að búa í spænsku stórborginni samkvæmt umboðsmanni kappans.

Bale er reglulega orðaður við endurkomu til Englands þar sem hann steig sín fyrstu skref sem fótboltamaður áður en Tottenham seldi hann til Real fyrir metfé árið 2013. Sóknarmaðurinn þrítugi ætlar þó ekki að færa sig um set og er samningsbundinn félaginu til 2022.

„Hann er á háum launum og það sem skiptir hann mestu máli er hvar hann vill vera, ég set ekki verðmiða á slíkt,“ sagði umboðsmaðurinn Jonathan Barnett við BBC. „Félögin verða að ákveða hvað þau vilja borga fyrir svona leikmann en hann er hamingjusamur í Madríd. Lifir góðu lífi og ég get ekki ímyndað mér að hann vilji yfirgefa borgina, hann vill sennilega klára ferilinn þarna.“

mbl.is