Tveir leikmenn á spítala eftir árás stuðningsmanna

Andrija Zivkovic og Julian Weigl.
Andrija Zivkovic og Julian Weigl. Ljósmynd/Benfica

Tveir leikmenn portúgalska knattspyrnufélagsins Benfica enduðu á spítala vegna árásar stuðningsmanna félagsins á rútu leikmanna í kjölfar þess að liðið gerði markalaust jafntefli við Tondela á heimavelli í portúgölsku úrvalsdeildinni. 

Þýski landsliðsmaðurinn Julian Weigl og serbneski landsliðsmaðurinn Andrija Zivkovic þurftu að fá aðhlynningu á spítala eftir að stuðningsmenn köstuðu aðskotahlutum að rútunni eftir leikinn. Var leikurinn sá fyrsti hjá liðinu eftir frí vegna kórónuveirunnar. 

Stuðningsmenn hópuðust fyrir utan völlinn þar sem leikið var án áhorfenda. Eru stuðningsmenn Benfica óvenjukröfuharðir því liðið er í toppsætinu með 60 stig, eins og Porto, í hörðum toppslag portúgölsku deildarinnar. 

„Ég vildi bara láta ykkur vita að það er í lagi með mig. Við vorum mjög heppnir að ekki fór verr. Við gerum allir mistök, en þarna var farið yfir línuna. Að kasta steinum í rútu og vera alveg sama þótt einhver slasist? Þannig eru ekki alvörustuðningsmenn!“ skrifaði Weigl á Instagram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert