Því miður fæ ég ekki að spila úrslitaleikinn

Sara Björk Gunnarsdóttir og Wolfsburg urðu þýskir meistarar á dögunum.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Wolfsburg urðu þýskir meistarar á dögunum. Ljósmynd/Wolfsburg

„Það er staðfest. Ég er búin að tilkynna liðinu það og því miður fæ ég ekki að spila úrslitaleikinn,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, í samtali við mbl.is. Sara verður samningslaus hjá Wolfsburg í Þýskalandi um mánaðarmótin og verður samningurinn ekki framlengdur. Getur hún því ekki spilað bikarúrslitaleik gegn Essen þann 4. júlí. 

Sara, sem hefur verið orðuð við Evrópumeistara Lyon síðustu mánuði, segir það fyrirmæli nýja félagsins að hún spili ekki úrslitaleikinn. „Því miður er ekkert sem ég get gert í því. Það eru fyrirmæli frá klúbbnum sem ég er að fara í og það eru ástæður fyrir því sem maður verður að virða. Þetta eru leikir sem maður vill spila og þetta er mjög leiðinlegt en ég er viss um að þær muni klára þetta. Maður er búin að vera hluti af þessu og vonandi verður maður bikarmeistari fjórða árið í röð.“

Sara hefur lítið viljað tjá sig um næsta skref á ferlinum, en ljóst er að fimmta félagsliðið bætist á ferilskrána um mánaðarmótin. Byrjaði hún ferilinn hjá Haukum áður en hún fór til Breiðabliks áður en hún hélt út í atvinnumennsku hjá Rosengård í Svíþjóð og loks Wolfsburg í Þýskalandi. Vildi nýja félagið ekki að Sara myndi spila leikinn, vegna meiðslahættu. 

„Það eru tryggingar í kringum það og það getur verið bras ef ég myndi meiðast. Ég skil alveg báðar hliðar, en þetta er ótrúlega svekkjandi því maður vill spila þessa leiki. Nú einbeiti ég mér að því að fá tíu daga frí eftir leikinn á sunnudaginn, það verður ekki mikið meira en það og eftir það verð ég komin í nýjan klúbb. Hvaða klúbbur það er kemur í ljós í næstu viku.“

Síðasti deildarleikur Wolfsburg á leiktíðinni er gegn Söndru Maríu Jessen og stöllum í Leverkusen næstkomandi sunnudag. Óvíst er með þátttöku Söru í leiknum vegna meiðsla og hefur hún því mögulega leikið sinn síðasta leik með Wolfsburg. 

„Ég ætla að bíða og sjá. Ég er búin að vera í brasi með hásinina á mér. Þetta er búið að vera strangt og langt tímabil og ég enda alltaf á því að finna til í hásininni. Það er búið að vera mikið álag og við verðum að sjá til hvað er það besta í stöðunni,“ sagði Sara Björk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert