Barcelona ætlar að reka stjórann

Quique Setien
Quique Setien AFP

Quique Setien, knatt­spyrn­u­stjóri spænska stórliðsins Barcelona, verður látinn fara að tímabilinu loknu nema frammistaða liðsins batni til muna og það vinni annaðhvort spænska meistaratitilinn eða Meistaradeild Evrópu á tímabilinu.

Setien tók við þjálfun spænska risans í janúar eftir að Ernesto Valverde var látinn fara en liðinu hefur ekki gengið sérlega vel á tímabilinu. Barcelona tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni um helgina, gerði 2:2-jafntefli við Celta Vigo, og gæti orðið undir í toppbaráttunni gegn erkifjendunum í Real Madríd.

Setien skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við félagið en forráðamenn þess eru þó tilbúnir að skipta honum út strax að tímabilinu loknu samkvæmt heimildum Goal. Barcelona mætir Napoli í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í ágúst en sigur í þeirri keppni gæti bjargað starfi Spánverjans sem er orðinn 61 árs.

mbl.is