Tveir leikmenn Bröndby smitaðir

Hjörtur Hermannsson lék með tveimur smituðum samherjum í leiknum við …
Hjörtur Hermannsson lék með tveimur smituðum samherjum í leiknum við Nordsjælland. Ljósmynd/Bröndby

Tveir leikmenn danska knattspyrnuliðsins Bröndby hafa greinst með kórónuveiruna en félagið hefur skýrt frá því að Simon Hedlund og Samuel Mraz sem léku með liðinu gegn Nordsjælland á sunnudaginn hafi reynst jákvæðir í skimun fyrir veirunni.

Í framhaldi af því fóru allir leikmenn Nordsjælland í skimun í gær og enginn þeirra greindist með smit.

Hedlund, sem skoraði annað marka Bröndby í 2:0 sigri, og Mraz þurfa nú að vera heima í sjö daga, missa af næsta leik, og bíða þess að koma neikvæðir út úr skimun.

Félagar þeirra í liði Bröndby, þar á meðal Hjörtur Hermannsson, fóru einnig í skimun þar sem allir reyndust neikvæðir og allur hópurinn verður skimaður aftur í vikunni en að öðru leyti geta þeir haldið sínu striki og búið sig undir næsta leik í deildinni.

mbl.is