Real Madrid keypti sér kvennalið

Líklegt er að kvennalið Real Madrid muni spila heimaleikina á …
Líklegt er að kvennalið Real Madrid muni spila heimaleikina á þessum velli, Alfredo di Stefano leikvanginum í Valdebebas, úthverfi Madrídar. AFP

Real Madrid er mætt til leiks með kvennalið í spænska fótboltanum eftir að félagið tók yfir starfsemi annars félags í Madríd, Deportivo Tacón, í dag.

Þessi samruni hefur staðið til í meira en ár en lögð voru drög að honum sumarið 2019, strax eftir að Tacón hafði í fyrsta skipti tryggt sér sæti í efstu deildinni á Spáni. Félagið hafði verið stofnað árið 2014 og aðeins leikið í þrjú ár í B-deildinni.

Tacón fékk til sín fjóra þekkta leikmenn fyrir síðasta tímabil, sænsku landsliðskonurnar Kosovare Asllani, og Sofiu Jakobsson, þýsku landsliðskonuna Babett Peter og brasilísku landsliðskonuna Thaisa, sem lék með Grindavík fyrir þremur árum.

Tacón var í tíunda sæti af sextán liðum þegar keppni var blásin af vegna kórónuveirunnar í mars en viðbúið er að liðið, sem frá og með deginum í dag spilar undir nafni og merkjum Real Madrid, verði styrkt talsvert fyrir komandi keppnistímabil.

mbl.is