Ótrúlegt gengi toppliðsins hélt áfram

Leikmenn Bodö/Glimt fagna marki í dag.
Leikmenn Bodö/Glimt fagna marki í dag. Ljósmynd/@HenrikHeldahl

Alfons Sampsted og félagar Bodö/Glimt unnu sinn sjötta sigur í röð í gegn Brann í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í Bodö í dag. Leiknum lauk með 5:0-sigri Bodö/Glimt.

Alfons lék allan leikinn í hægri bakvarðastöðunni. Bodö/Glimt er með fullt hús stiga eða 18 stig eftir fyrstu sex leiki tímabilsins og markatöluna 24:6. Alfons hefur leikið alla sex leiki liðsins á tímabilinu sem er í efsta sætinu með tveggja stiga forskot á Molde sem er í öðru sætinu.

Þá voru þeir Emil Pálsson og Viðar Ari Jónsson í byrjunarliði Sandefjord sem tapaði 3:0 á heimavelli gegn Sarpsborg. Emil var skipt af velli á 62. mínútu og Viðar Ari fór af velli á 84. mínútu. Sandefjord er í þrettánda sæti deildarinnar með 4 stig, einu stigi frá fallsæti eftir fyrstu sex umferðir deildarinnar.

Dagur Dan Þórhallsson kom inn á sem varamaður á 62. mínútu hjá Mjöndalen í 2:1-tapi gegn Molde en Mjöndalen er í áttunda sæti deildarinnar með 8 stig. Þá var Ari Leifsson ónotaður varamaður hjá liði Strömsgodset sem gerði 2:2-jafntefli gegn Kristianstund á heimavelli en Strömsgodset er í fimmta sæti deildarinnar með 9 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert