Á leið í læknisskoðun hjá Dortmund

Jude Bellingham er að ganga til liðs við Dortmund.
Jude Bellingham er að ganga til liðs við Dortmund. Ljósmynd/@NLVoetbal_new

Jude Bellingham er á leið í læknisskoðun hjá þýska knattspyrnufélaginu Borussia Dortmund en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Bellingham er samningsbundinn Birmingham City en hann er einungis 17 ára gamall og hefur verið orðaður við félög á borð við Manchester United og Chelsea í vetur.

Bellingham hefur hins vegar ákveðið að fylgja fordæmi Jadon Sancho sem fór einnig til Dortmund frá Manchester City, 17 ára gamall, en hann hefur slegið í gegn í Þýskalandi og er einn eftirsóttast leikmaður heims í dag. Sky Sport greinir frá því að Dortmund þurfti að borga 26 milljónir punda fyrir Bellingham.

Það gerir hann að dýrasta unglingi heims í dag en hann er fyrirliði U17 ára landsliðs Englands. Samkvæmt fréttum á Englandi mun Bellingham klára tímabilið með Birmingham í ensku B-deildinni, áður en hann byrjar formlega að æfa með Dortmund, en reikna má með því að gengið verði frá félagaskiptunum á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert