Líkir Íslendingnum við skriðdreka

Ísak Snær Þorvaldsson.
Ísak Snær Þorvaldsson. Ljósmynd/St.Mirren

Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn Ísak Snær Þorvaldsson samdi á dögunum við skoska knattspyrnufélagið St. Mirren á eins árs lánssamningi frá enska félaginu Norwich City.

Ísak, sem er 19 ára miðjumaður, var í láni hjá enska C-deild­arliðinu Fleetwood seinni hluta síðasta tíma­bils en hann náði aðeins að spila tvo leiki áður en keppni var stöðvuð vegna út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar.

Jim Goodwin, knattspyrnustjóri St. Mirren, er spenntur fyrir Íslendingnum, en St. Mirren mætir Livingston á heimavelli í skosku úrvalsdeildinni á morgun klukkan 14 og gæti Ísak leikið sinn fyrsta leik með liðinu. 

„Hann er sóknarsinnaður miðjumaður. Hann er aðeins 19 ára en hann er byggður eins og hann sé 25 ára. Hann er eins og skriðdreki! Norwich hefur mikið álit á honum og hann fékk góð meðmæli,“ sagði Goodwin á heimasíðu félagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert