Búinn að gera þriggja ára samning við Inter

Alexis Sánchez verður leikmaður Inter Mílanó næstu þrjú árin.
Alexis Sánchez verður leikmaður Inter Mílanó næstu þrjú árin. AFP

Ítalska knattspyrnufélagið Inter Mílanó hefur gert þriggja ára samning við Sílemanninn Alexis Sánchez. Sóknarmaðurinn, sem er 31 árs, lék með Inter á leiktíðinni á lánssamningi frá Manchester United. 

Inter þarf ekki að greiða United fyrir félagsskiptin, en þess í stað greiðir félagið leikmanninum himinhá laun. Skoraði Sánchez fjögur mörk í 29 leikjum í öllum keppnum með Inter á leiktíðinni. 

Sánchez lék 45 leiki með United eftir að félagið keypti hann frá Arsenal. Náði hann sér ekki á strik í Manchester og skoraði aðeins fimm mörk. Sánchez skoraði 80 mörk í 166 leikjum með Arsenal og 47 mörk í 141 leik með Barcelona. 

mbl.is