Manchester City áfram - Juventus úr leik

Raheem Sterling og Casemiro berjast um boltann á Etihad-leikvanginum í …
Raheem Sterling og Casemiro berjast um boltann á Etihad-leikvanginum í kvöld. AFP

Manchester City og Lyon leika til fjórðungsúrslita í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu en tveir leikir í 16-liða úrslitunum fóru fram í kvöld. Manchester City vann 2:1-heimasigur á Real Madríd, einvígið samanlagt 4:2, og Lyon tapaði gegn Juventus á Ítalíu, 2:1, en fór áfram á útivallarmarki, einvígið fór samanlagt 2:2.

Raheem Sterling kom City yfir gegn Real strax á 9. mínútu eftir slæm mistök í vörn gestanna. Raphael Varane missti þá boltann til Gabriel Jesus sem gaf fyrir á Sterling sem skoraði. Franski miðvörðurinn var svo aftur í veseni í síðari hálfleik þegar hann reyndi að skalla boltann til baka á Thibaut Courtois í markinu en Jesus skarst inn í leikinn og skoraði. Þar á milli hafði Karim Benzema skorað fyrir Real en það dugði Madrídingum ekki til, eftir að hafa líka tapað 2:1 á heimavelli þegar liðin mættust fyrst í mars.

Óvænt tíðindi á Ítalíu

Þá sló Lyon óvænt út Juventus, þrátt fyrir tap í kvöld. Ítölsku meistararnir töpuðu 1:0 í Frakklandi fyrir fimm mánuðum og lentu undir snemma leiks í kvöld, Memphis Depay skoraði úr vítaspyrnu á 12. mínútu. Cristiano Ronaldo jafnaði metin fyrir Juventus úr vítaspyrnu á 43. mínútu og bætti svo við marki á 60. mínútu, 2:1, en það dugði ekki til. Lyon fer áfram á útivallarmarkinu sem liðið skoraði.

Eftir 16-liða úrslitin, sem klárast á morgun, verður öll keppnin færð til Lissabon, höfuðborgar Portúgals, og fyrirkomulaginu breytt í hraðmót sem minnir á stórmót landsliða. Verður annars vegar leikið á José Alvalade-vellinum, heimavelli Sporting, og hins vegar Da Luz-vellinum, heimavelli Benfica. Mætast lið aðeins einu sinni í átta liða úrslitum og undanúrslitum í stað þess að leika tvo leiki.

Manchester City mætir einmitt Lyon í fjórðungsúrslitum í Lissabon, 15. ágúst. Átta liða úrslitin verða spiluð frá 12.-15. ágúst, einn leikur á dag, og sömu sögu er að segja um undanúrslitin 18.-19. ágúst. Þá fer úrslitaleikurinn fram 23. ágúst á heimavelli Benfica. 

Man. City 2:1 Real Madrid opna loka
90. mín. Leik lokið Manchester City fer áfram, vinnur samanlagt 4:2,Real Madríd er úr leik.
mbl.is