Leikur KR í Meistaradeildinni í hættu?

Leikmenn Celtic gegn Neymar í æfingaleik í sumar.
Leikmenn Celtic gegn Neymar í æfingaleik í sumar. AFP

Skosk yfirvöld hóta nú að stöðva alla leiki í efstu deild í knattspyrnu þar í landi tímabundið eftir að leikmaður skosku meistaranna í Celtic braut sóttvarnareglur. Celtic á að taka á móti KR í Meistaradeildinni 18. ágúst.

Boli Bolingoli ferðaðist til Spánar í síðustu viku án þess að láta félagið vita og spilaði svo með Celtic gegn Kilmarnock á sunnudaginn, án þess að hann hefði farið í sóttkví.

Aðeins tveimur dögum áður þurfti að fresta leik Aberdeen gegn St Johnstone vegna þess að tveir leikmenn greindust með kórónuveiruna. Í yfirlýsingu frá heilbrigðisráðuneyti Skotlands segir að brotið sé nú til skoðunar og vel komi til greina að stöðva allt keppnishald tímabundið til að tryggja öryggi og heilsu leikmanna og almennings.

Íslandsmeistarar KR eiga að mæta Celtic í Skotlandi síðar í mánuðinum í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu. Fari svo að yfirvöld þar í landi banni knattspyrnuleiki verður leikurinn að öllum líkindum færður á hlutlausan völl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert