Komust ekki í riðlakeppnina

Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í Rosenborg réðu ekki við …
Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í Rosenborg réðu ekki við PSV í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hólmar Örn Eyjólfsson og Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmenn í knattspyrnu, ná ekki að spila með liðum sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur en lið þeirra máttu sætta sig við ósigra í umspilsleikjunum í dag.

Hólmar og félagar fengu PSV Eindhoven frá Hollandi í heimsókn til Þrándheims. PSV sigraði 2:0 með mörkum frá Eran Zahavi og Cody Gakpo, sínu í hvorum hálfleik. Hólmar lék allan leikinn í vörn Rosenborg.

Arnór Ingvi og samherjar í Malmö tóku á móti Granada frá Spáni sem komst yfir eftir hálftíma með marki frá Darwin Machis. Jo Inge Berget jafnaði fyrir Malmö í lok fyrri hálfleiks og  staðan var 1:1 í hléi. Antonio Puertas kom Granada yfir á 59. mínútu og Yangel Herrera tryggði sigur Spánverjanna, 3:1, með marki á 85. mínútu. Arnór Ingvi kom inn á  sem varamaður hjá Malmö á 71. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert