Lætur af störfum um áramótin

Helgi Kolviðsson lætur af störfum sem landsliðsþjálfari Liechtenstein um áramótin.
Helgi Kolviðsson lætur af störfum sem landsliðsþjálfari Liechtenstein um áramótin. AFP

Helgi Kolviðsson, landsliðsþjálfari Liechtenstein í knattspyrnu, verður ekki áfram með liðið þegar samningur hans rennur út um næstu áramót en þetta staðfesti hann í samtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun á SportFM í dag.

Helgi hefur stýrt landsliði Liechtenstein frá því í desember 2018 en liðið vann sögulegan sigur í gær þegar það vann sinn annan leik í röð gegn Lúxemborg í vináttuleik í Lúxemborg.

„Ég er búinn að vera í viðræðum við knattspyrnusambandið frá því í júlí og við höfum ekki ennþá náð samkomulagi,“ sagði Helgi í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun.

„Ég er þess vegna búinn að taka þá ákvörðun að klára þá leiki sem eftir eru, klára samninginn minn, og láta þar við sitja. Ég er því bara að skoða mig um í augnablikinu.

Ég er með samning út þetta ár og það kitlar mig líka að róa á önnur mið,“ bætti Helgi við.

Liechtenstein hefur unnið tvo síðustu landsleiki sína, gegn Lúxemborg og San Marínó, og það er í fyrsta skipti í sögunni sem landslið fámennu alpaþjóðarinnar vinnur tvo leiki í röð. Það býr sig undir leiki við Gíbraltar og San Marínó í Þjóðadeildinni á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert