Varð af stigum í toppbaráttunni

Glódís Perla Viggósdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar hennar hjá Rosengård þurftu að sætta sig við 1:1-jafntefli á útivelli gegn Vittsjö í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta og misstu þar með af stigum í toppbaráttunni. 

Glódís lék allan leikinn í hjarta varnarinnar að vanda. Rosengård er nú í öðru sæti með 41 stig, sex stigum á eftir toppliði Gautaborgar. 

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn með Djurgården sem tapaði á heimavelli gegn Linköping, 0:3. Guðbjörg Gunnarsdóttir lék ekki með Djurgården en hún er ekki komin á fullt eftir að hafa fætt tvíbura. 

Þá var Anna Rakel Pétursdóttir allan tímann á bekknum hjá Uppsala í 0:2-tapi gegn Växjö.

mbl.is