Opnaði markareikninginn á Ítalíu

Óttar Magnús Karlsson er byrjaður að skora á Ítalíu.
Óttar Magnús Karlsson er byrjaður að skora á Ítalíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttar Magnús Karlsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Venezia þegar liðið fékk Pescara í heimsókn í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Leiknum lauk með 4:0-sigri Venezia en Óttar Magnús skoraði fjórða mark Venezia í uppbótartíma.

Framherjinn byrjaði á bekknum í leiknum en kom inn á sem varamaður á 67. mínútu. Hann gekk til liðs við félagið í lok september frá Víkingi úr Reykjavík.

Þá kom Bjarki Steinn Bjarkason einnig inn á sem varamaður hjá Venezia, tíu mínútum síðar.

Venezia er með 7 stig í fjórða sæti ítölsku B-deildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðirnar, 3 stigum minna en topplið Cittadella og Empoli.

mbl.is