Leikjatörn landsliðsins situr í Rúnari

Rúnar Már Sigurjónsson með skemmtileg varnartilþrif í leik Íslands og …
Rúnar Már Sigurjónsson með skemmtileg varnartilþrif í leik Íslands og Belgíu. Eggert Jóhannesson

Rúnar Már Sigurjónsson landsliðsmaður í knattspyrnu gat ekki leikið með liði sínu, Astana, í dag vegna meiðsla þegar það sigraði Tobol, 1:0, í úrvalsdeildinni í Kasakstan.

Rúnar sagði við mbl.is að hann væri með smávægileg meiðsli í baki eftir landsleikjatörnina um daginn en hann lék þá alla þrjá leiki Íslands, gegn Rúmeníu, Danmörku og Belgíu.

„Ég verð líklega kominn á ról eftir nokkra daga en það er þó ekki víst að ég nái næsta leik Astana sem er strax á mánudaginn. Það eru enn helmingslíkur á því en ég ætti að vera klár eftir hann,“ sagði Rúnar.

Tímabilið í Kasakstan hefur tafist mikið eins og víðast annars staðar vegna kórónuveirunnar en aðeins eru búnir 13 leikir hjá Astana þótt fyrstu leikirnir hafi verið í marsmánuði. 

„Þetta hafa verið löng og mikil hlé en leikjum í deildinni var fækkað til að vega á móti því. Við eigum eftir að spila sjö leiki og náum þá að ljúka þessu fljótlega eftir næsta landsleikjahlé,“ sagði Rúnar.

Hann varð meistari með Astana á síðasta ári en erfitt verður fyrir liðið að verja titilinn. Þegar sjö leikir eru eftir er Astana í öðru sæti, átta stigum á eftir Kairat Almaty. 

„Já, það verður erfitt að ná þeim. Þeir hafa verið bestir á þessu tímabili og við höfum í rauninni bara verið slakir. Við verðum eiginlega að vinna rest og vona það besta," sagði Rúnar sem er markahæsti leikmaður Astana á tímabilinu og þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar með sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert