Stórsigur hjá Bayern en Leipzig á toppnum

Þrjú mörk hjá Lewandowski.
Þrjú mörk hjá Lewandowski. AFP

Bayern München vann afar sannfærandi 5:0-sigur á Eintracht Frankfurt í þýsku 1. deildinni í fótbolta í dag. Pólverjinn Robert Lewandowski var í stuði eins og oft áður og skoraði þrennu. 

Skoraði Lewandowski þrjú fyrstu mörk Bayern, tvö í fyrri hálfleik og það þriðja á 60. mínútu. Leroy Sané og Jamal Musiala bættu við mörkum á síðustu 20 mínútunum og þar við sat. 

Sigurinn nægði ekki til að fara í toppsætið því Leipzig hafði betur gegn Hertha Berlín, 2:1. Jhon Córdoba kom Berlínarliðinu yfir á áttundu mínútu en þremur mínútum síðar skoraði Dayot Upamecano jöfnunarmark. 

Dayovaisio Zeefuik kom inn á í hálfleik hjá Hertha og á aðeins fimm mínútum var hann búinn að fá tvö gul spjöld og þar með rautt. Leipzig nýtti sér liðmuninn og Marcel Sabitzer skoraði sigurmark úr víti á 77. mínútu og þar við sat. 

Leipzig er með 13 stig á toppnum, Bayern með 12 í öðru sæti og Dortmund, sem leikur síðar í dag, er í þriðja sæti með níu stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert