Besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar

Þjálfari Norrköping hrósaði unga Skagamanninum í hástert í gær.
Þjálfari Norrköping hrósaði unga Skagamanninum í hástert í gær. Ljósmynd/Norrköping

Ísak Bergmann Jóhannesson hefur slegið í gegn í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessari leiktíð en stórlið á borð við Juventus og Manchester United hafa nú þegar sent njósnara sína til þess að fylgjast með leikmanninum.

Jens Gustafsson, þjálfari Norrköping, mætti í viðtal eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn AIK í sænsku úrvalsdeildinni í gær en Ísak var í byrjunarliði Norrköping og lék allan leikinn á miðsvæðinu.

„Það eru sannkölluð forréttindi að vinna með honum á hverjum degi,“ sagði Gustafsson í sjónvarpsviðtali eftir leik.

„Hann sýnir það og sannar á hverjum einasta degi hversu langt er hægt að ná ef maður er tilbúinn að leggja mikið á sig.

Dugnaður hans og elja smitar út frá sér og það er frábært að fylgjast með honum á æfingasvæðinu.

Það eru leikmenn í deildinni sem eru kannski sterkari og fljótari en samt sem áður ber hann höfuð og herðar yfir aðra leikmenn því hann leggur svo hart að sér alltaf.

Hann er besti leikmaður sem hefur spilað í sænsku úrvalsdeildinni í langan tíma,“ bætti Gustafsson við um 17 ára gamla Skagamanninn.

mbl.is