Ætlar ekki að segja af sér

Zinedine Zidane á hliðarlínunni í leiknum í kvöld.
Zinedine Zidane á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madríd á Spáni, segist ekki ætla að hætta með liðið eftir 0:2 tap liðsins gegn Shakhtar Donetsk í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

„Nei. Ég ætla ekki að segja af mér og við ætlum að halda áfram,“ sagði Zidane þegar hann var spurður af blaðamanni spænska dagblaðsins AS hvort hann væri að hugleiða afsögn.

Zidane sagði lið sitt hafa verið óheppið í leiknum og að fyrra mark Shakhtar hafi sett það úr jafnvægi. „Markið þeirra hafði mikil áhrif á okkur. Við vorum að spila vel, áttum tvö eða þrjú færi og skutum í stöngina. Boltinn vildi ekki inn í markið.“

„Við höfum átt erfið augnablik og það var alltaf að fara að gerast. Við höfum átt nokkra slaka leiki í röð, við getum ekki farið í felur með það. En við verðum að halda áfram,“ bætti hann við.

 Að lokum sagðist Zidane hafa fulla trú á því að hann gæti rétt skútuna við. „Já að sjálfsögðu. Ég mun gefa allt mitt í verkefnið, eins og ég geri alltaf.“

mbl.is