Neymar snýr aftur til æfinga

Neymar var mættur á æfingu PSG í morgun.
Neymar var mættur á æfingu PSG í morgun. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur snúið aftur til æfinga eftir ökklameiðsli sem hafa haldið honum frá keppni undanfarnar vikur.

Þetta staðfesti franska félagið á twittersíðu sinni í dag en Neymar lék síðast með PSG hinn 13. desember síðastliðinn þegar liðið tapaði 1:0 á heimavelli fyrir Lyon í frönsku 1. deildinni.

Neymar var þá tæklaður illa af Thiago Mendes í uppbótartíma en Neymar yfirgaf völlinn á börum og Mendes var úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir brotið.

Sóknarmaðurinn, sem er 28 ára gamall, hefur skorað þrjú mörk og lagt upp önnur þrjú í frönsku 1. deildinni á tímabilinu.

Forráðamenn PSG vonast til þess að Neymar verði klár í slaginn og kominn í leikform þegar PSG heimsækir Barcelona í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar 16. febrúar.

Það hefur ýmislegt breyst hjá PSG undanfarnar vikur en Mauricio Pochettino var ráðinn knattspyrnustjóri liðsins á dögunum eftir að Thomas Thuchel var rekinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert