Pólverjinn setti markamet í sigri Bayern

Robert Lewandowski.
Robert Lewandowski. AFP

Robert Lew­andowski sló enn eitt markametið er hann skoraði í 2:1-sigri Bayern München á Freiburg í þýsku efstu deildinni í knattspyrnu í dag. Með sigrinum fara þýsku meistararnir upp í 36 stig og eru þeir á toppnum með fjögurra stiga forystu á RB Leipzig.

Pólski framherjinn kom heimamönnum yfir úr vítaspyrnu á sjöundu mínútu og varð hann þar með fyrsti leikmaðurinn í sögu efstu deildarinnar til að skora 21 mark í fyrstu 16 leikjum tímabilsins en goðsögnin Gerd Müller skoraði á sínum tíma 20 mörk í 16 leikjum tímabilið 1968-69.

Nils Petersen jafnaði metin fyrir gestina eftir klukkutímaleik en Thomas Müller skoraði sigurmark Bayern stundarfjórðungi fyrir leikslok og kom liðinu aftur á sigurbraut eftir óvænt tap í síðustu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert