Sá þriðji markahæsti í Meistaradeildinni

Robert Lewandowski fagnar markinu gegn Lazio.
Robert Lewandowski fagnar markinu gegn Lazio. AFP

Pólverjinn Robert Lewandowski er orðinn þriðji markahæsti leikmaður Meistaradeildar Evrópu/Evrópukeppni meistaraliða frá upphafi. 

Lewandowski skoraði fyrir Bayern München í gær á móti Lazio þegar Evrópumeistararnir burstuðu ítalska liðið 4:1 í Róm. Hefur Lewandowski þá skorað 72 mörk í keppninni á ferlinum. 55 fyrir Bayern og 17 fyrir Dortmund. 

Renndi Pólverjinn sér fram úr Spánverjanum Raúl sem er þá orðinn fjórði á listanum. Cristiano Ronaldo er markahæstur með 134 mörk og Lionel Messi er með 119. 

Marksæknustu leikmennirnir á árum áður áttu litla möguleika að ná slíkum tölum þar sem leikjum í keppninni fjölgaði mikið þegar fyrirkomulaginu var breytt á tíunda áratugnum. Alfredo Di Stefano nær þó inn á topp tíu listann en á meðal tíu markahæstu eru einnig Karim Benzema, Ruud van Nistelrooy, Thierry Henry, Zlatan Ibrahimovic og Andriy Shevchenko. 

mbl.is