Ekki spurning um hvort heldur hvenær

Zinedine Zidane er samningsbundinn Real Madrid til 2022.
Zinedine Zidane er samningsbundinn Real Madrid til 2022. AFP

Zinedine Zidane verður knattspyrnustjóri Juventus og það er aðeins tímaspursmál hvenær hann yfirgefur Real Madrid til að taka við sínu gamla félagi.

Þetta er fullyrt í spænska íþróttadagblaðinu AS í dag með fyrirsögninni: Ekki hvort heldur hvenær.

Zidane á rúmt ár eftir af samningi sínum við Real Madrid en Andrea Pirlo þykir afar valtur í sessi hjá Juventus eftir vonbrigðatímabil þar á bæ. Ítalíumeistaratitillinn er nánast runninn liðinu úr greipum eftir níu sigra í röð og liðið féll úr keppni í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Ítalía er ávallt mér í hjartastað. Juventus hefur alltaf verið mér mikilvægt félag. Ég veit ekki hvort ég fer aftur til Ítalíu. Núna er ég hér, við sjáum til,“ sagði Zidane þegar hann var spurður um þetta af Sky Sports Italia eftir sigurinn á Liverpool, 3:1, í Meistaradeildinni í gærkvöld.

Zidane lék með Juventus í fimm ár, frá 1996 til 2001, lék 151 leik með liðinu í A-deildinni og varð tvívegis ítalskur meistari með liðinu.

mbl.is