Hætta á öllum samfélagsmiðlum vegna kynþáttaníðs

Leikmenn Swansea City munu hætta á öllum samfélagsmiðlum í viku.
Leikmenn Swansea City munu hætta á öllum samfélagsmiðlum í viku. AFP

Velska knattspyrnufélagið Swansea City, sem leikur í ensku B-deildinni, hefur tilkynnt að félagið, allir leikmenn þess og starfsmenn muni hætta í eina viku á öllum samfélagsmiðlum til þess að setja þrýsting á miðla á borð við Facebook og Twitter í baráttunni við mismunun af hverju tagi.

Þrír leikmanna Swansea hafa orðið fyrir grófu kynþáttaníði á samfélagsmiðlum undanfarna tvo mánuði, þeir Yan Dhanda, Ben Cabango og nú síðast Jamal Lowe. Dhanda hafði til að mynda gagnrýnt aðgerðaleysi Facebook þegar hann varð fyrir níði á miðlinum. Lögreglan í Suður-Wales rannsakar nú mál Dhanda og Cabango.

Félagið hefur skrifað bréf til bæði Mark Zuckerberg, forstjóra og stofnanda Facebook, sem og Instagram, og Jack Dorsey, forstjóra Twitter, til þess að krefjast harðari refsinga í garð þeirra sem gerast sekir um „níð sem markast af heigulshætti og er því miður orðið allt of algengt“.

„Við höfum orðið vitni að því að nokkrir leikmanna okkar hafa orðið fyrir viðurstyggilegu níði bara á síðustu sjö vikum, og okkur þykir það rétt að taka afstöðu gegn hegðun sem er smánarblettur á íþróttinni okkar og samfélaginu í heild,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Swansea vegna ákvörðunarinnar.

Frá og með deginum í dag munu allir leikmenn aðalliðsins, leikmenn unglingaliðsins og starfslið þessara liða ekki rita inn neinar færslur á Facebook, Twitter, Instagram, LinkedIn, Snapchat, YouTube eða TikTok. Kvennalið Swansea, góðgerðarsamtök liðsins og æðstu stjórnendur félagsins munu gera slíkt hið sama.

 „Við munum alltaf styðja skilyrðislaust við bakið á leikmönnum okkar, starfsmönnum, stuðningsmönnum og góðgerðarsamtökunum sem við erum stoltir að vera í forsvari fyrir. Við í félaginu stöndum öll saman þegar kemur að þessu vandamáli.

Við viljum einnig styðja við bakið á leikmönnum annarra félaga sem hafa þurft að þola ógeðslega mismunun á samfélagsmiðlum. Við vonumst til þess að okkar sterka afstaða muni varpa frekara ljósi á þau víðtæku áhrif sem svona níð hefur,“ sagði einnig í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert