Fyrsta titillausa tímabilið síðan 2010

Celtic vinnur engan titil þetta árið.
Celtic vinnur engan titil þetta árið. AFP

Rangers hafði betur gegn nágrönnum sínum og erkifjendum í Celtic í 16-liða úrslitum skosku bikarkeppninnar í dag. Þar með er ljóst að Celtic fer í fyrsta sinn í 11 ár titillaust í gegnum leiktímabil.

Rangers batt í síðasta mánuði enda á níu ára samfellda sigurgöngu Celtic í skosku úrvalsdeildinni með því að tryggja sér skoska meistaratitilinn og með sigrinum í bikarkeppninni í dag getur Celtic ekki unnið titil á þessu tímabili, og er það í fyrsta sinn síðan tímabilið 2009/2010 sem það gerist.

Í leiknum í dag vann Rangers 2:0-sigur. Steven Davis kom heimamönnum á bragðið á 10. mínútu með laglegri bakfallsspyrnu og Jonjoe Kenny varð svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir rúmlega hálftíma leik.

Rangers er þar með komið áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar, hvar liðið mun freista þess að vinna tvöfalt í ár.

mbl.is