Parísarliðið hefur engan áhuga á ofurdeildinni

París SG ætlar ekki í ofurdeildina.
París SG ætlar ekki í ofurdeildina. AFP

Franska knattspyrnufélagið París SG hefur engan áhuga á eða fyrirætlanir um að gerast aðili að fyrirhugaðri ofurdeild í evrópska fótboltanum en stjórnarformaður félagsins lýsti því yfir í dag.

Nasser Al-Khelaifi, sem er bæði stjórnarformaður og framkvæmdastjóri PSG, sagði í yfirlýsingu að félagið hefði það að leiðarljósi að fótboltinn væri íþrótt fyrir alla.

„Þetta hef ég sagt frá byrjun. Sem knattspyrnufélag erum við fjölskylda og samfélag þar sem stuðningsfólkið er hornsteinninn. Þessu skulum við ekki gleyma.

Við teljum að svona aðgerðir utan UEFA, stofnunar sem hefur unnið að hagsmunum evrópsks fótbolta í nærri því sjötíu ár, leysi ekki þau vandamál sem knattspyrnusamfélagið glímir við um þessar mundir, heldur séu þær knúnar áfram af eiginhagsmunum.

París Saint-Germain mun halda áfram að vinna með UEFA, Samtökum evrópskra knattspyrnufélaga (ECA) og öllum meðlimum í knattspyrnufjölskyldunni, þar sem byggt er á góðum vilja, heiðarleika og virðingu fyrir öllum,“ sagði Al-Khelaifi í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert