Ferguson hrífst af Gerrard

Sir Alex Ferguson er hrifinn af því starfi sem Steven …
Sir Alex Ferguson er hrifinn af því starfi sem Steven Gerrard hefur unnið hjá Rangers. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, segir Steven Gerrard, knattspyrnustjóra skoska félagsins Rangers, vera að standa sig frábærlega í starfi.

Undir stjórn Gerrards vann Rangers sinn fyrsta skoska meistaratitil í áratug eftir einokun erkifjendanna og nágrannana í Celtic.

„Hann hefur staðið sig stórkostlega. Það hefur hann svo sannarlega gert, bæði innan og utan vallar. Viðtöl við fjölmiðla geta kostað þig starfið. En blaðamannafundir Stevens eru frábærir. Hann er svalur, hann er rólegur, hann gefur réttu svörin. Hann er virkilega góður því þetta er list,“ sagði Ferguson í samtali við Guardian.

Steven Gerrard er knattspyrnustjóri Skotlandsmeistara Rangers.
Steven Gerrard er knattspyrnustjóri Skotlandsmeistara Rangers. AFP

Einhvern tíma hefði það þótt skjóta skökku við að Man Utd-goðsögn myndi hrósa Gerrard, sem var fyrirliði Liverpool um langt árabil, en vísast er það auðveldara í dag þegar hvorugur tengist ensku stórveldunum með beinum hætti.

Ferguson tengist auk þess Rangers frá því í æsku. Hann er fæddur í Govan-hluta Glasgow í Skotlandi, þar sem íbúar styðja Rangers. Hann ólst upp í hverfinu, studdi liðið í æsku og spilaði með því um skeið á leikmannaferli sínum.

mbl.is