Hollendingar sluppu með skrekkinn

Denzel Dumfries, fyrir miðju, fagnar dramatísku sigurmarki sínu í Amsterdam …
Denzel Dumfries, fyrir miðju, fagnar dramatísku sigurmarki sínu í Amsterdam í kvöld. AFP

Holland vann 3:2-sigur á Úkraínu eftir líflegar lokamínútur í Amsterdam er liðin mættust í fyrsta leik sínum á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu.

Hollendingar sóttu stíft frá fyrstu mínútu og þurfti Georgiy Bushchan markvörður að bjarga Úkraínumönnum nokkrum sinnum ágætlega í fyrri hálfleik. Georginio Wijnaldum braut þó að lokum ísinn á 52. mínútu og kom Hollandi í forystu áður en Wout Weghorst bætti við marki sex mínútum síðar.

Allt stefndi því í þægilegan sigur appelsínugulra en áhlaup Úkraínu undir lok leiks skilaði tveimur mörkum. Fyrst sneri Andriy Yarmolenko boltann upp í hornið úr laglegu skoti á 75. mínútu og fjórum mínútum síðar jafnaði Roman Yaremchuk metin úr skalla.

Að lokum voru það þó Hollendingar sem kreistu fram sigurmark, Denzel Dumfries skoraði það á 85. mínútu. Holland er því jafnt Austurríki á toppi C-riðilsins en Úkraína og Norður-Makedónía eru án stiga.

mbl.is