Holstein Kiel staðfestir kaupin á Hólmberti

Hólmbert Aron Friðjónsson fagnar marki í leik með Aalesund.
Hólmbert Aron Friðjónsson fagnar marki í leik með Aalesund. Ljósmynd/aafk.no/Srdan Mudrinic

Þýska knattspyrnufélagið Holstein Kiel staðfesti í dag að það hefði gengið frá kaupum á framherjanum Hólmberti Aroni Friðjónssyni frá Brescia á Ítalíu.

Hann hefur skrifað undir samning við félagið til sumarsins 2024, eða til næstu þriggja ára.

Hólmbert kom til Brescia síðasta haust frá Aalesund í Noregi en náði aðeins að spila tíu leiki með ítalska liðinu í B-deildinni þar í landi vegna þrálátra meiðsla. Hann er 28 ára gamall, uppalinn hjá HK og lék með liðinu í tvö ár í meistaraflokki en síðan með Fram, Celtic í Skotlandi, Brøndby í Danmörku, KR og Stjörnunni, en með Aalesund í tæp þrjú ár þar sem hann skoraði 37 mörk í 71 deildaleik.

Holstein Kiel hafnaði í þriðja sæti þýsku B-deildarinnar í vetur og mætti Köln í tveimur umspilsleikjum um sæti í 1. deild en tapaði því einvígi og leikur því áfram í B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert