Messi jafnaði landsleikjametið

Lionel Messi í sínum 147. landsleik í nótt.
Lionel Messi í sínum 147. landsleik í nótt. AFP

Argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi jafnaði í nótt landsleikjamet karlalandsliðsins þegar hann lék sinn 147. landsleik. Javier Mascherano átti metið einn þar til í nótt.

Messi lék allan leikinn í 1:0 sigri Argentínu á Paragvæ í A-riðli Ameríkubikarsins, Copa America, er liðið tryggði sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Argentínska liðið á því enn eftir að spila að minnsta kosti tvo leiki í keppninni; fjórða og síðasta leik riðlakeppninnar gegn Bólivíu í næstu viku og leikinn í átta liða úrslitum.

Ansi góðar líkur verða því að teljast á því að Messi slái met Mascherano áður en langt er um liðið.

Auk þess að vera jafn leikjahæstur með Mascherano, sem er hættur knattspyrnuiðkun, er Messi langmarkahæsti leikmaðurinn í sögu argentínska landsliðsins með 73 mörk.

Næstur á eftir honum af þeim leikmönnum sem eru enn spilandi er Sergio Agüero, góðvinur og tilvonandi samherji Messi hjá Barcelona, með 41 mark í 99 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert