Vænta þess að Ronaldo verði áfram

Cristiano Ronaldo heilsaði upp á stuðningsmenn er hann sneri aftur …
Cristiano Ronaldo heilsaði upp á stuðningsmenn er hann sneri aftur til æfinga hjá Juventus. AFP

Forráðamenn ítalska knattspyrnufélagsins Juventus eiga ekki von á öðru en stórstjarnan Cristiano Ronaldo haldi kyrru fyrir hjá liðinu en Portúgalinn á eitt ár eftir af samningi sínum.

Ronaldo gekk til liðs við Juventus frá Real Madríd sumarið 2018 fyrir um 100 milljónir evra og hefur hann á þremur árum orðið ítalskur meistari tvívegis og bikarmeistari einu sinni. Ronaldo er orðinn 36 ára gamall en hann á að baki 133 leiki fyrir ítalska liðið þar sem hann hefur skorað 101 mark.

Portúgalinn er nú snúinn aftur til æfinga hjá Juventus eftir lengra sumarfrí vegna EM í sumar en fjölmiðlar á Englandi og í Frakklandi hafa velt því fyrir sér hvort endurkoma til Manchester United gæti verið í kortunum eða félagsskipti til franska stórliðsins PSG.

Samkvæmt heimildum Goal hafa forráðamenn Juventus hins vegar ekki miklar áhyggjur af öðru en að leikmaðurinn verði áfram hjá liðinu, allavega út næstu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert